fbpx

Magnesíum

24/11/2022
Magnesíum

Magnesíum er lífsnauðsynlegur efnahvati í virkni ensíma, sérstaklega þeirra sem vinna að orkuframleiðslu. Það hjálpar líka til við upptöku kalks og kalíums. Skortur á magnesíum hefur áhrif á flutning tauga- og vöðvaboða og getur valdið depurð og jafnvel taugaveiklun.   

Sé magnesíum bætt við mataræði getur það unnið gegn þunglyndi, svima, slappleika í vöðvum, vöðvakippum og fyrirtíðarspennu. Auk þess sem það hjálpar til við að viðhalda eðlilegu sýrustigi líkamans og líkamshita.

Þetta mikilvæga steinefni verndar veggi slagæða gegn álagi þegar skyndilegar breytingar á blóðþrýstingi verða. Það skipar stórt hlutverk í myndun beina og í efnaskiptum kolvetnis og vítamína/steinefna.

Ásamt B6 vítamíni hjálpar magnesíum við að draga úr og leysa upp nýrnasteina og getur hjálpað til við að fyrirbyggja myndun þeirra. Rannsóknir sýna að magnesíum getur fyrirbyggt hjarta- og æðasjúkdóma, beinþynningu og ákveðnar tegundir krabbameins. Það getur einnig dregið úr kólestróli, unnið gegn fæðingum fyrir tímann og samdráttarkrömpum hjá þunguðum konum.

Rannsóknir sýna að inntaka magnesíums meðan á þungun stendur dregur verulega úr fósturskaða við fæðingu.  Allt að 70% lægri tíðni andlegrar þroskaskerðingar hefur mælst hjá börnum mæðra sem tóku magnesíum meðan á þungun stóð ásamt 90% lægri tíðni á lömun vegna heilaskemmda við fæðingu.

Mögulegar birtingarmyndir á magnesíumskorti eru ruglingur, svefnleysi, depurð, slök melting, hraður hjartsláttur, flog og æðisköst. Oft veldur magnesíumskortur svipuðum einkennum og sykursýki.

Magnesíumskortur fyrirfinnst gjarnan við upphaf margra hjarta- og æðavandamála. Hann getur verið meginorsök banvæns hjartakasts, mikillar taugaspennu og skyndilegrar hjartastöðvunar, auk astma, síþreytu, krónísks sársauka, þunglyndis, svefnleysis, ristiltruflana og lungnasjúkdóma. Rannsóknir hafa einnig sýnt að magnesíumskortur getur ýtt undir myndun nýrnasteina.   

Mæling á magnesíummagni hjá einstaklingi ætti að vera grunnrannsókn þar sem magnesíumskortur eykur áhrif nánast allra sjúkdóma.

Magnesíum fyrirfinnst í flestum matvælum, fiski, kjöti, sjávarfangi sem og mjólkurvörum. Önnur magnesíumrík matvæli eru epli, apríkósur, avókadó, bananar, ölger, hýðishrísgrjón, cantaloupe melónur, söl, fíkjur, hvítlaukur, greip, grænar salattegundir, þari, sítrónur, hirsi, hnetur, ferskjur, augnbaunir, lax, sesamfræ, sojabaunir, tofú, vætukarsi og heilkorn.

Þær jurtir sem innihalda magnesíum eru meðal annars alfa alfa spírur, kattarmynta, cayenne pipar, kamilla, haugarfi, fíflar, augnfró, fennelfræ, fenugreek, humall, piparrót, sítrónugras, lakkrís, netlur, hafrastrá, paprika, steinselja, piparmynta, hindberjalauf, rauðsmári, rófustilkar, kakó, rabarbari, spínat og te.

Neysla áfengis, notkun þvagræsilyfja, niðurgangur og streita eykur þörf líkamans fyrir magnesíum.

Magnesium